Hvernig gengur að ná endum saman?

Afkoma hins opinbera er munurinn á þeim tekjum sem það aflar - einkum með sköttum sem landsmenn greiða - og því sem kostar að reka ríki og sveitarfélög. Ef afkoman er neikvæð þá hefur meiru verið eytt en tekjurnar standa undir. Jákvæð afkoma þýðir hins vegar að tekjur hafa staðið undir gjöldum og afgangur er í lok árs.

Á þessari síðu má sjá tölulegar upplýsingar um tekjur og gjöld, eignir og skuldir A-hluta hins opinbera. Það er sá hluti sem er að mestu fjármagnaður með skatttekjum. Þetta þýðir að fyrirtæki og stofnanir sem teljast til B- og C-hluta hins opinbera eru undanskilin, en það eru aðilar sem eru reknir á ábyrgð hins opinbera eða teljast til félaga sem eru í meirihlutaeigu ríkis og sveitarfélaga.
Gögn síðunnar eru sótt til Hagstofu Íslands, Skattsins og Fjársýslunnar, sem hefur yfirumsjón með bókhaldi og uppgjöri ríkissjóðs. Í þeim tilvikum þar sem þróun er sýnd yfir tímabil eru tölur birtar á verðlagi hvers árs og sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eða á hvern íbúa. Þegar talað er um verga landsframleiðslu er átt við verðmæti allrar vöru og þjónustu sem framleidd er í landinu á hverju ári. Tölulegar upplýsingar eru frá síðastliðnu ári nema annað sé tekið fram.
Vakin er athygli á því að upplýsingar sem birtar eru á þessari síðu eru á alþjóðlegum hagskýrslustaðli (GFS). Rekstrarafkoma ríkisreiknings er hins vegar birt á grunni reikningsskilastaðla fyrir opinbera aðila (IPSAS). Það þýðir að þær tölur sem birtast á þessari síðu og sýna helstu hagstærðir ríkissjóðs eru ekki með öllu þær sömu og birtast í ríkisreikningi vegna aðlagana sem gerðar eru á tilteknum liðum.

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira